19.2.2007 | 10:38
Hvernig heila ertu með?
Ég rakst á afar heimskulegt próf á bbc.co.uk, en það á að skera úr um hvers konar heila próftakinn er með. Prófið byggist á ýmsum misheimskulegum kenningum og karl- og kvenheilann, og látið er eins og þetta séu tveir ólíkir hlutir.
Prófið er í 6 hlutum og allra heimskulegasti hlutinn mælir getur fólks til að greina svipbrigði. Þetta væri ekki svo heimskulegt ef raunin væri sú að karlmenn og konur ættu miserfitt með að greina svipbrigði, en þegar prófinu er lokið kemur í ljós að meðaltal karla og kvenna á þessu prófi er hið sama. Þannig hefur prófhlutinn ekkert aðgreiningarhlutverk og hlýtur að teljast irrelevant.
Þá var mér bent á í prófinu að ég væri með ráðandi vinstra heilahvel (left hemisphere dominant). Þetta var auðvitað mikið sjokk, ekki síst vegna þess að um 90% fólks er einmitt þannig. Ekki man ég eftir því að þessi munur hafi verið breytilegur á milli kynja (en ég skrifaði eitt sinn ritgerð um ráðandi heilahvel og örvhendu). Þannig sé ég ekki að þessi prófþáttur sé aðgreinandi frekar en sá sem ég nefndi á undan.
Þá er einn prófhluti þannig að mæla á vísi- og baugfingur beggja handa. Þarna er vísað í einhverja vafasama testósterón kenningu þar sem baugfingurinn á að vera stærri eftir því sem fólk hefur orðið fyrir meira testósteróni í móðurkviði. Ef þessi undarlega kenning stenst er ég uppfullur af karlmennsku, en hlutfallið hjá mér var baugfingur/vísifingur=0,91 á meðan meðal karlmaðurinn er með 0,96 og konur með 1.00. Þessi prófþáttur verður þó að teljast afar vafasamur, ekki síst ef tekið er tillit til þess að ég geng í buxum úr kvennadeildinni í Söru og er reglulega spurður hvort ég sé hommi á djamminu.
Það vill svo til að ég stóð mig frábærlega á þessu prófi. Var yfir meðaltali í öllum prófhlutum og má þá helst nefna frábæran árangur í sjónminnis- og hugarsnúningsverkefnum.
Þessi frábæri árangur minn gerði það að verkum að ég er með 0% heila. Það þýðir reyndar ekki að ég sé heilalaus, heldur er mér sagt að heilinn í mér sæki hvorki í karllæga né kvenlæga átt.
Þetta var prófgagnrýni dagsins. Prófið prófið sjálf.
Athugasemdir
Ég tók einu sinni þátt í svona prófi í tengslum við útkomu bókar (Karlar kunna ekki þetta og konur geta ekki hitt) og kom út sem trukkalessa, verra hjá vinkonu minni, hún reyndist vera EINHVERF trukkalessa, heili okkar þótti þetta karllægur ... samt erum við vitlausar í karlmenn. Prófaði svo öllu vitrænna próf sem tók 40 mínútur eða svo og kom út eins og þú ... með jafna virkni í báðum heilahvelum, það er sjaldgæft og þykir ógurlega gott ... Við erum snillingar!
Annars er ég búin að fá ógeð á þessu staðalímyndakjaftæði, ég má ekki elska fótbolta vegna kyns og ekki elska rapp vegna aldurs ... osfrv. Það er vandlifað!
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 19.2.2007 kl. 10:52
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.