5.3.2007 | 12:30
Enn ein heimskulega fréttin af engu!
Það er alltaf leiðinlegt fyrir okkur, sem höfum varið ómældum klukkustundum í að skilja eitthvað um heilann, þegar aðrir, sem hafa aðeins varið einni klukkustund til sömu starfa, búa til fáránlegar sögur ofan á vísindastarf.
Að geta sagt til um hvort fólk velur aðgerðina draga frá eða leggja saman hefur ekkert með siðfræði að gera. Þarna er aðeins verið að skoða fylgni hegðunar og taugavirkni. Þegar búið er að finna einhverja fylgni og gefa út ægilega fína skýrslu höfum við öðlast lýsandi, og yfirborðskennda mynd af því hvernig heilastarfsemi er mismunandi við frádrátt annars vegar og samlagningu hins vegar. Þetta segir okkur þó lítið sem ekkert um hvernig viðfang 223 mun leggja saman eða draga frá. Heilar fólks eru einfaldlega misjafnir, og það er enginn að fara að nota svona upplýsingar til að leysa glæpamál.
Það þarf ekki að leita lengra en til örvhentra til að sjá að heilar eru afar mismunandi. Og enn í dag eru engar fullnægjandi kenningar til um örvhendu. Það er fráleitt stress að halda að mikilvægar siðferðilegar spurningar þurfi að vakna vegna þessarar og sambærilegra rannsókna.
Ef við lítum t.d. á möndlunginn (amygdala), þá tekur hann þátt í öllum (eða a.m.k. svo til öllum) geðshræringum. Hvernig eigum við að vita hvaða geðshræring það er með því að skoða virkni í möndlungnum? Við höfum ekki hugmynd um það, og ef tæknin gefur okkur hugmynd, eftir einhver ár, þá höfum við a.m.k. aldrei vissu. Skoðið greinina um möndlunginn og athugið hvort ykkur finnst hlutverk hans ekki rosalega skýrt, og líklegt til að sakfella glæpamenn í framtíðinni.
Rannsóknin virðist ekki snúast um neitt annað en taugafræðilega fylgni við hegðun í þrautalausn, en það er víst ekki skemmtilegt og fréttnæmt...
Reyna að lesa hugsanir manna | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
AP virðist telja þetta áhugavert, þú ættir kannski að fara að stjórna þeirra fréttaflutningi?
h (IP-tala skráð) 5.3.2007 kl. 12:39
Siðfræðiparturinn eru áhyggjur manna af framtíðinni, ef þú skyldir ekki hafa áttað þig á því. Fólk sem les þetta áttar sig á því að hugsanalestur er ekki á næsta leyti, vertu alveg rólegur. Eiga fréttamenn bara að skrifa um það sem þeir hafa stúderað í mörg ár? Á að vera fréttamaður fyrir hvert tilvik, einn sem veit allt um heilavísindi, annar sem veit allt um kjarneðlisfræði osfrv? Enn ein heimskuleg bloggfærslan um ekki neitt.
Jói (IP-tala skráð) 5.3.2007 kl. 12:43
Mér fannst þetta nú bara mjög athyglisverð frétt, en get nú ekki sagt það sama um þessa bloggfærslu. Frekar hrokafull verð ég að segja.
Jens (IP-tala skráð) 5.3.2007 kl. 13:15
Fréttin er ómerkileg af því að:
Það þarf ekkert að vera sér fréttamaður fyrir hvert svið fréttaflutnings. Hins vegar þykir mér kjánalegt þegar fréttamenn flytja fréttir án þess að vita hvað þær þýða. Þeir skilja kannski enskuna, en skilja alls ekki um hvað fréttin fjallar. Sennilega hefur fréttamaður AP ekki vitað mikið um málið heldur.
Ég vil ekki svona fréttir því þær gefa kolranga mynd af vísindunum sem liggja að baki. Þær rugla lesendur og hafa ekkert fram að færa annað en afþreyingu. Þá stendur eftir þessa frétt einhver undarleg siðferðileg spurning sem er hvergi í takt við það sem raunverulega er verið að rannsaka. Hvað ef fMRI rannsóknum í tengslum við heilabilun, sértækar heilaskemmdir o.fl. taugasjúkdóma hljóta ekki styrki af því að styrkveitendur telji stafræna segulómmyndun siðferðilega ranga aðferð?
Fréttin er léleg, hvort sem það er ábyrgð AP, eða mbl.is. En ef blaðamenn á mbl eru svekktir geta þeir reynt að fá vefstjórann til að kikka mér héðan burt. Þangað til er mér nákvæmlega sama þó ég sé hrokafullur, leiðinlegur og skrifi bloggfærslu um ekki neitt.
Góðar stundir!
Árni Gunnar Ásgeirsson, 5.3.2007 kl. 17:53
Þetta er eitt af allt of mörgum dæmum þess þegar menn draga óréttmætar ályktanir um hugan þegar í raun er ekki verið að skoða neitt annað en heila. Heilasneiðmyndir og myndir úr segulómunartækjum eru ekki myndir af hugsunum eða tilfinningum. Hvernig gæti annars mynd í heilanum af hugsuninni "ég ætla að draga frá núna" litið út? Þetta eru ekki myndir af hugsunum, sem hafa eitthver merkingarlegt inntak. Þetta eru einfaldlega myndir af raf- og efnavirkni í heilanum þegar við hugsum, og það er ekkert hrokafullt við að benda á það að fréttin byggist á misskilningu. Áhyggjru siðfræðinganna eru líka á misskilningi byggðar, því jafnvel þótt áhyggjurnar beinist að fjarlægri framtíð, þá gera þeir ráð fyrir því að það verði einhverntímann hægt að lesa hugsanir og að myndir úr segulómunartækjum geti einhverntímann hjálpað til við að leysa sakamál. Þetta mun ekki gerast. Ekki vegna þess að tæknin er og verður takmörkuð. Þetta snýst ekkert um það hversu mikið við vitum um heilann í dag, heldur af hverju myndirnar úr þessum tækjum eru. Þetta eru ekki myndir af hugsunum.
Almennt, þá gerum við öll þær kröfur til blaðamanna að þeir hafi lágmarksþekkingu á því sem þeir flytja fréttir um. Ef umræður eru um nýtt lagafrumvarp á alþingi, og blaðamaður fær það hlutverk að skrifa frétt um þær umræður, þá er sú krafa gerð til blaðamannsins að hann kynni sér í hverju umræðurnar felast og um hvað lagafrumvarpið er. Við gerum líka þá kröfu að þeir fari rétt með staðreyndir og búi ekki til frétt um staðleysu. Þegar fréttirnar fjalla um vísindi virðast þessar kröfur ekki lengur eiga við, af einhverjum undarlegum ástæðum. Þetta er stórmerkilegt fyrirbæri og reyndar afar slæmt. Því fleiri sem skrifa um það því betra.
baldur (IP-tala skráð) 7.3.2007 kl. 14:56
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.