8.7.2007 | 00:58
Harðfiskvísitalan o.fl. nýjungar í hagfræði
Það eru nokkrar vísitölur sem ég bíð ennþá eftir að verði teknar saman:
- Harðfiskvísitalan - Ég veit að harðfiskur er búinn til bæði í Noregi og á einhverjum eyjum Karíbahafs. Hvað ætli hann kosti þar? Borgar sig kannski að flytja harðfiskinn inn frekar en að greiða kílóverð silfurs fyrir flökin?
- Rafmagnsvísitalan - Ég er hræddur um að ansi margir gjaldmiðlar þættu ofmetnir miðað við þann íslenska ef keppt væri í kílóvattstundum.
- Hitaveituvísitalan, sjá rafmagnsvísitölu.
- Smokkavísitalan - Hvað kostar öryggið unglingana? Smokkapakkinn er allavega orðinn ansi dýr, þrátt fyrir að vera kominn í hillur bónus. Er fylgni á milli smokkaverðs og svokallaðra ótímabærra þungana? Er fjölgun íslensku þjóðarinnar, þvert á trendið í Evrópu, kannski þessu háa smokkaverði að þakka?
- Slúðurvísitalan - lesnar fréttir af hjónabandi Brangelínu (er þetta ekki rétt?) sem hlutfall af meðalgreind x kvaðratrótin af of stórum flíspeysum merktum fyrirtæki í notkun á heimilinu.
Íslenska krónan ofmetnasta myntin samkvæmt Bic Mac vísitölunni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Harðfiskvísitala - góð hugmynd
Norska harðfiskvísitalan mundi vera mun hærri en sú Íslenska. Ég hef séð harðfisk á allt að ISK 17.500 kr kílóið í Noregi.
Það fara 5 kíló af roðlausum beinlausum ýsuflökum til að búa til 1 kíló af harðfiski, eða sem svarar 13 - 15 kílóum af fiski upp úr sjó. Við vinnsluna verður til vara sem er með hæsta hlutfall af náttúrulegu prótíni sem þekkist (80 - 85%). Skoðið nýlega skýrslu Matís um þetta mál. http://www.matis.is/media/matis/utgafa/Skyrsla_09-07.pdf
Skoðið smásöluverð á nýrri línuýsu roðlausri beinlausri í fiskbúðum og prófið svo að margfalda það með 5. Þá kemur í ljós að harðfiskur er mjög samkeppnishæfur í verði. Öll framhaldsvinnslan með dýrum og orkufrekum búnaði og mannafla er í rauninni "ókeypis" í samanburði við verð á nýjum flökum í fiskbúðum.
Norðmenn framleiða harðfisk, en það sem ég hef smakkað er selt á sama verði (en er verra í gæðum) í verslunum í Noregi og Íslenski harðfiskurinn í sömu verslunum.
Halldór Halldórsson, 8.7.2007 kl. 09:18
Þakka þér fyrir þessar upplýsingar. Ég geri mér grein fyrir ástæðu ofurverðs á harðfiski. Þess vegna vil ég einmitt fá vísitölu, og sjá hvort hægt sé að flytja inn.
Annars var vinnan við harðfiskin alveg jafn mikil, eða meiri, fyrir nokkrum áratugum þegar Skreið til Nígeríu var daglegt brauð. Ég get ekki ímyndað mér að margir Nígeríumenn hafi efni á þessari vöru lengur. Ekki nema kannski prinsarnir allir sem senda mér reglulega tölvupóst.
Árni Gunnar Ásgeirsson, 8.7.2007 kl. 12:34
Skreið, eins og sú sem fór á Nígeríumerkað, er allt annað en harðfiskur.
Þegar ég var á netavertíð í Eyjum um og upp úr 1980 þá barst mikið að landi af tveggja nátta fiski. Það er fiskur sem veiddur var í net sem voru látin liggja í sjó í tvo sólarhringa. Þessi fiskur var gjarnan slægður, hengdur upp á rá og sendur til Nígeríu þegar hann var þornaður. Þetta var eina aðferðin til að fá einhvern pening fyrir hráefni sem var viljandi skemmt í þeim eina tilgangi að geta náð sem hæstum afla. Þá voru það tonnin sem skiptu máli en ekki aflaverðmætið.
Harðfiskur er alltaf meira unninn en skreið, þar kemur til flökun og snyrting og svo þurrkun, völsun og pökkun.
Við vinnslu harðfisks er nauðsynlegt að nota úrvals hráefni og sem allra bestu framleiðsluaðferðir. Útiþurrkun þekkist ennþá, en veðurfarslegar aðstæður hafa gert þá vinnsluaðferð mjög áhættusama vegna þess að umhleypingar skemma bæði þorsk og ýsu í útiþurrkun. Steinbíturinn er undantekning, hann þolir mun betur hin breyttu veðurfarslegu skilyrði.
Svo eru til tvær aðferðir við inniþurrkun, þ.e. þurrkun við stofuhita og þurrkun með kældri aðferð.
Við heitu þurrkunaraðferðina þarf að nota þónokkuð salt til þess að verja vöruna skemmdum í þurrkferlinu.
Kælda inniþurrkunaraðferðin er sú langdýrasta hvað varðar fjárfestingu í tækjabúnaði og orkunotkun. Kæld inniþurrkunaraðferð gefur hins vegar mjög góða niðurstöðu og unnt er að stýra saltinnihaldi eftir smekk, jafnvel að sleppa því alveg.
Það er sem sagt mikill munur á gömlu spíruránum sem tveggja nátta þorskurinn var hengdur á og þeim aðferðum sem notaðar eru til að búa til hágæða harðfisk.
Halldór Halldórsson, 8.7.2007 kl. 16:25
Þakka þér fyrir Halldór og verði lesendum að góðu. Við erum menntuð í harðfisk!
Árni Gunnar Ásgeirsson, 8.7.2007 kl. 20:09
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.