9.8.2007 | 18:32
Góða helgi!
Ég er bókaðir í bæði brúðkaup og afmæli um helgina, og mun því sennilega missa af því þegar karlmaður í T-strengsnærbuxum hristir á sér kynfærin, aðeins um 40 sm. frá andliti mínu um leið og hann sveiflar fána og klípur í rassinn á unnusta sínum. Engu að síður óska ég öllum sem munu taka virkan þátt í gleðigöngunni, og skemmtunum tengdum henni, góðrar helgi.
Um leið ætla ég að krækja í þessa grein um ættleiðngar samkynhneigðra sem ég skrifaði fyrir nokkru síðan. Hún er í eigu annars vefrits og því birti ég hana ekki hér.
Steini Díva krýndur dragdrottning Íslands | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
9.8.2007 | 17:18
Auglýsingar?
Allur matur góður ef hann er merktur McDonalds | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
8.8.2007 | 21:55
Dónaskapur
Það er ótrúlegt hvað ofurhetja íslenskra stjórnmálamanna, stóri, sænski, vöðvastælti, maraþonhlaupandi, besservitandi, læknis-, lýðheilsu- og faraldsfræðimenntaði maðurinn með ljósu lokkana og Bold and the Beautiful-klippinguna, hefur mikil áhrif á stefnumótun hérlendis. Þegar hlustað er á þennan geðþekka félaga virðast mottó og fjaðrir í hattinn vera teknar fram yfir eðlilega stefnumótun, virðingu fyrir þegnunum og almenna hófsemi. Handvirkar breytingar á reykvenjum Íslendinga og nærsveitamann eru mottó fyrrverandi heilbrigðisráðherra og, að mér sýnist, minnisvarði hennar um sjálfa sig, reistur í vonlausri stöðu. Það var jú næsta víst að Framsóknarflokkurinn hyrfi úr ríkisstjórn eftir stutta setu Sifjar í heilbrigðisráðuneytinu. Einu málin sem við munum frá Sif eru reykingabannið og gríðarlegur skortur á hjúkrunarfræðingum og sjúkraliðum.
Á næstunni getur Sif fróað réttlætiskennd sinni yfir frábæru framtaki sínu, nú þegar meira að segja sjúklingar á bráðageðdeild þurfa að fá leyfi til að labba út að gömlu Hringbraut til að reykja eða, ef þeim er bannað að yfirgefa deildina, er gefinn plástur og sagt að halda kjafti.
Eins og venjulega í orðræðu um reykbönn er vísað til verndunar starfsfólks og annarra sem verða fyrir miklu óþægindum vegna reykinga annarra. Ef við lítum aftur til bráðdeildar geðsviðs, þá er þar sérstakt reykherbergi utandyra. Það er ómögulegt að verða fyrir ónæði af reyknum, nema þá ónæðið sem vaktmaður hverju sinni upplifir þegar hann þarf að ýta á takka og hleypa vesalingunum út. Það er því óafsakanlegt að loka þessu herbergi. Lokunin er aðeins mottó, komið í framkvæmd svo einhverjir ómerkilegir embættismenn úti í bæ geti haft plagg á vegg skrifstofu sinnar með áskriftinni: Reyklaus vinnustaður frá .... 2007.
Þetta er auðvitað ekkert nema dónaskapur, ekki síst þegar litið er til þess að fólk hefur oftast lítið val um hvort það sé á spítala. Fólk getur valið að fara ekki á kaffihús, að vinna ekki hér eða þar o.s.frv., en það er ekki hægt að velja reykspítalann umfram hinn. Fólk þarf að vera á spítala og á því að njóta þeirra sjálfsögðu réttinda að reykja tóbak sem ríkið hefur milligöngu um að selja því.
Andað léttar á LSH | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
7.8.2007 | 22:00
Góðar fréttir
Það eina sem vantar við þessa frétt er að Elín Hirst biður okkur ekki um að benda sér á fleiri góðar fréttir. Fyrir fólk sem hefur horft upp á forfeður eða -mæður hrörna með Alzheimer er þetta vissulega góð hvatning... og ég nýbúinn að kaupa espresso maskínu.
Ef í ljós kemur að þetta er bull og vitleysa, hef ég a.m.k. lifað góðu og kaffiríku lífi.
Kaffidrykkja við elliglöpum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.8.2007 | 21:50
Líklega um íkveikju að ræða
Hver kannast ekki við að hafa verið á leikvellinum í gamla daga og allt í einu stóðu rólurnar í ljósum logum? Hver hefur ekki sviðið á sér rasskinnarnar við að renna sér niður brennandi rennibraut? Aðeins vinir mínir í Spinal Tap geta skýrt brennandi leiktæki án þess að minnast á íkveikju.
Íkveikja á Miklatúni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.8.2007 | 17:16
Kaffið er sopið
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
3.8.2007 | 17:53
Eðlilegt klúður
Það er eðlilegt að norska hirðin vilji ekki taka tíma frá umræðu um málefni fatlaðra á special olympics með bulli um engla.
Það er klúður að vera að opinbera svona skyggnivitleysu, sérstaklega rétt fyrir þennan stóra viðburð.
Ég æta því að vera sammála reglunum og gagnrýninni! Á
kv. Árni Gunnar, vinur allra!
Spurningar um engla verða ekki liðnar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
31.7.2007 | 22:50
Viðskiptahugmynd!
Einu sinni fór ég í næturlest frá Zurich til Berlínar. Í henni var bar og þótti okkur mikið til hans koma, enda hvergi nærri eins leiðinlegt að ferðast með lestinni þegar hægt er að sitja á barnum.
Mörgum sinnum fór ég svo í neðanjarðarlestir um alla Evrópu þar sem blaðasölumenn, og stundum tónlistarmenn, stukku upp í lestina, buðu blaðið öllum í vagninum (eða spiluðu lag) hurfu svo á braut og endurtóku leikinn í nýjum vangi, eða jafnvel nýrri lest.
Með þessum hætti er hægt að bjóða stórum markhópi vöru á stuttum tíma. Sígaunatónlist og borgarblöð eru ekki vinsælar vörur og því tel ég ólíklegt að þessir aðilar hafi haft mikið upp úr starfinu, en sennilega mun meira en ef þeir hefði staðið á götuhorni.
Nú vil ég sameina hugmyndina um að stökkva á milli vanga og að vera með bar í lest. Ég vil að lítil kaffihús opni á öllum aðalstöðvum Strætó. Þessi kaffihús hafi svo hreyfanlega sölumenn með vinsæla kaffidrykki hangandi framan á sér. Þetta gætu verið sérhannaðir bakkar sem festir eru við sölumennina með ólum. Þessi menn stökkva svo upp í vagna nr. 17 á Hlemmi. Bjóða öllum kaffi sem þeir selja á sanngjörnu verði. Þeir yfirgefa svo vagn 17 í Mjóddinni þar sem þeir taka vagna 24. Þar er farþegum aftur boðið kaffi og sölumaður stekkur út við Ártún þar sem hann tekur strætó niður á Hlemm. Á öllum stöðvum getur hann fyllt á vinsælustu kaffitegundirnar, s.s. venjulegt kaffi, latté og cappuccino. Allir kaffibollar eru auðvitað með loki, þannig að farþegar séu ekki mikið að brenna sig.
Hver væri ekki til í að taka strætó sem selur nýlagað hágæðakaffi?
Með blaðið og kaffibollann í strætó í haust | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
31.7.2007 | 21:58
Skýjaleikur Magnúsar Skarphéðinssonar
Þegar ég var lítill sá ég einhverja fjölskyldumynd þar sem fallegir bandarískir krakkar, sennilega annar með spékoppa og hinn með freknur, lögðust í grasið og horfðu á létta skýjaslikju renna eftir heiðbláum himni. Börnin lýstu því sem þau sáu úr formi skýjanna, kött, hund, mann að lesa dagblað á biðstofu tannlæknis, Nintendo Entertainment System og sitthvað fleira (ok, ég man ekki hvað þau sáu, en eitthvað var það).
Þetta þótti mér skemmtileg hugmynd þá og þykir raunar enn. Það er ágætt að sjá hvað reynsla manns af því að sjá form hefur mikil áhrif á túlkun okkar á öðrum formum. Þessi túlkun er gagnleg, og jafnvel nauðsynleg, því stundum þurfum við að taka ákvarðanir um óskýr form í myrkri, þoku, á kafi í vatni o.s.frv. Að við getum skemmt okkur við skýjagláp, eða skýjaleik eins og við krakkarnir kölluðum þetta, er svo bara skemmtileg aukageta sem styttir mammi stundir og þjálfar ímyndunaraflið.
Þegar fullorðnir karlmenn fara í skýjaleik sem á að sýna fram á tilveru ljósálfa, drauga og annarra skrýmsla er leikurinn hættur að vera fyndinn. Reynar horfði Magnús Skarphéðinsson ekki til himins þegar hann fór í skýjaleik í kastljóstinu í kvöld, heldur á skemmdar ljósmyndir. Hann notaði dýrustu mögulegu skýringar til að sýna fram á að hann og hans teymi hefðu haft rétt fyrir sér allan tímann, og vildi svo veita atvinnuljósmyndara nóbelsverðlaun í bullskýringum [ekki orðrétt, en það var inntakið] þegar hann kom með ódýrari, og líklegri skýringar. Þessar skýringar voru t.d. á þá leið að ljósnæmar flögur væru skítugar, að flass hefði lent á ögnum mjög nálægt linsu og að móða frá andardrætti ljósmyndara í kaldri kirkju væri það sem Magnús sá sem draug.
Sennilega hafa þeir bræður, Skarphéðinn og Össur, ekki alist upp með rakhníf Ockham's við höndina, enda hefur skeggvöxtur fjölskyldunnar oft verið fram úr hófi.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
31.7.2007 | 21:25
Kenningar um örvhendu
Af gefnu tilefni ætla ég að birta þessa ritgerð um örvhendu, og þá einkum tvær kenningar um fyrirbærið. Ritgerðin er skrifuð vorið 2006. Ég hef ekki séð skýrslu visindamannanna við Oxford og ætla því ekki að taka afstöðu til hennar. Ég bendi hins vegar á ágæta gagnrýni Heiðu Maríu Sigurðardóttur á það hvernig talað er um heilahvelin í fréttinni.
Inngangur: Hvað er örvhenda, algengi hennar og fræðilegar spurningar
Örvhendu er ekki auðvelt að skilgreina. Venjulega álítum við þann mann örvhentan sem við sjáum skrifa, kasta bolta eða slá strengi hljóðfæris með vinstri hendinni. Í rauninni er þó hægt að skipta fólki, bæði rétthentu og örvhentu, í fleiri undirhópa. Í rannsóknum hefur hugtakið örvhentur (og undirflokkar) verið aðgerðarbundið með margs konar hætti (sjá t.d. Einar Guðmundsson, 1993; Searleman og Porac, 2003) . Almennt má segja að rannsóknir sýni okkur að til eru bæði örvhentir og rétthentir sem hafa mjög stöðuga tilhneigingu til notkunar annarrar handarinnar. Í annan flokk falla þeir sem eru óstöðugir í notkun handa, og það er áhugaverður hópur bæði vegna þess hvernig hann er útskýrður út frá erfðafræðilegum módelum (Annett, 2003) og vegna þess að sá hópur er líklegri til að verða rétthentur með æfingu (Searleman og Porac, 2003).
Ástæður örvhendu hefur verið erfitt að útskýra og í dag er engin endanleg skýring á þessu algenga fyrirbæri. Rannsóknir gefa til kynna að þar sem ekki er samfélagslegur þrýstingur á fólki að nota hægri höndina til flestra verka séu hlutfall örvhentra 8-12% (Zverev, í prentun).
Í þessari ritgerð reyni ég að fræða lesandann um tvö aðalatriði: 1. Hverjar eru ástæður örvhendu? og 2. Hvaða vandamál fylgja örvhendu og hvað er hægt að gera í þeim?
Kenningar: lýsing á tveimur rökstuddum kenningum um örvhendu.
Það á almennt við um stjórn hreyfinga að hún fer fram í andstæðu (contralateral) heilahveli. Þegar verið er að fjalla um örvhendu er nauðsynlegt að hafa það í huga að mælanlegur lífeðlisfræðilegur munur hefur fundist á virkni í heila örvhentra og rétthentra sem kemur fram á t.d. fMRI og PET myndum (t.d. Grafton, Hari og Salenius, 2000). Þrátt fyrir að heili manna, og þá sérstaklega barna, hafi reynst mjög sveigjanlegur og verða fyrir töluverðum áhrifum frá reynslu (Carlson, 2004; Halfon, Shulman, og Hochstein, 2001) hefur þessi eðlismunur á heilastarfi beint rannsóknum á braut erfðafræði og áfalla (heilaskemmda, hormónaójafnvægi o.s.frv.).
Fylgnisamband örvhendu við alls kyns vandkvæði hafa fundist. Geschwind og Behan (1984) komust að því að örvhentir væri 10x líklegri til að vera með sérhæfða námsörðugleika, m.a. lesblindu, en einnig var marktækt meiri fylgni við margs konar ónæmissjúkdóma (í Carlsson, 2004). Út frá þessari rannsókn og fleirum hefur orðið til kenning Geschwind, Behan og Galaburda um að hormónaójafnvægi á meðgöngu valdi breytingum á heila. Erfitt hefur reynst að færa sönnur á þessa kenningu þó svo að einhverjar rannsóknir styðji hana veikum gögnum (t.d. Hugdahl o.fl., 1989). Sumir hafa líka aflað gagna sem styðja hana óbeint. Tengsl örvhendu og karlmannlegra eiginleika kvenna (tomboyism) hafa fundist (Casey og Nuttall, 1990) og samkvæmt greiningu Martin L. Lalumière (2000) á tengslum samkynhneigðar og hendu, voru örvhentir 39% líklegri til að vera samkynhneigðir. Þessi stuðningur við kenninguna er óbeinn vegna þess að tenging samkynhneigðar við hormónaumhverfi á fósturstigi er enn sem komið er veik (Gleitman, 2004; Carlson, 2004). Kenningin hefur einnig verið gagnrýnd sérstaklega vegna tengingar við ónæmissjúkdóma (St. Marseille og Braun, 1994).
Geschwind hefur sjálfur viðurkennt, vegna niðurstaðna eigin rannsóknar á tvíburum, að gögn falli vel að erfðafræðilegum skýringarmódelum á örvhendu, án þess þó að hann hafi fallið algerlega frá sínum hugmyndum (Geschwind o.fl., 2002).
Helstu kenningarsmiðir á sviði erfðafræðilegra skýringa á örvhendu eru Chris McManus og Marian Annett. Hér verður fjallað sérstaklega um verk þeirrar síðarnefndu. Kenning Annett er kölluð The right-shift theory. Í grunnatriðum gengur kenningin út á að rétthenda sé undir stjórn eins genapars, RS. Þetta par býður upp á þrjár mismunandi arfgerðir RS++, RS+- og RS- -. RS stendur fyrir right-shift og vísar í virkni gensins sem veldur því að ósamræmi verður milli heilahvela og það vinstra hlýtur yfirburði yfir það hægra á vissum sviðum (cerebral dominance). Þannig er það ekki svo að RS+ standi fyrir rétthendu, heldur yfirburði vinstra heilahvels. RS- þýðir að yfirburðirnir verða ekki, en ekki að arfberi verði sjálfkrafa örvhentur. Þeir sem hafa RS++ arfgerð eru alla jafna stöðugir í rétthendu sinni. RS+ genið er talið hálfríkjandi um eiginleika sína og því er búist við því að stærstur hluti þeirra sem hafa RS+- genapar séu rétthendir en sumir óstöðugir og lítið hlutfall stöðugir örvhentir. Þeir sem hafa RS- - arfgerð eru svo að stórum hluta örvhentir (Annett, 2003)
Lögð skal áhersla á það að RS- arfgerð veldur ekki örvhendu, heldur jafnari virkni heilahvela. Því getur meginhöndin orðið hvoru megin sem er. Þetta skýrir það hvers vegna eineggja tvíburar þurfa ekki að vera eins hentir þrátt fyrir sömu arfgerð (Annett, 2003). Annett hefur fengið nokkurn stuðning við kenningu sína af rannsóknum með tvíbura (Annett, 2003; Geschwind, 2002).
Það er ekki eining um orsök örvhendu og reyndar ekkert víst að um eina orsök sé að ræða. Örvhenda gæti t.d. verið samskonar svipgerð mismunandi orsaka, t.d. hormónaójafnvægis annars vegar og erfða hins vegar. Hér hefur verið rætt um tvær kenningar en þær eru mun fleiri, og ekki allar jafn vísindalegar. Josef Janssen hefur t.d. lagt fram kenningu um að börn taki upp örvhendu sem svar við áföllum í æsku tengdum slæmum uppeldisháttum (Janssen, 2000). Miðað við þau gögn sem talin hafa verið að ofan verður kenning Annett að teljast best til skýringa á örvhendu.
Örvhenda: nokkur vandamál og mögulegar leiðréttingar
Í nútímanum, einkum á vesturlöndum, eru flestir hlutir, verkfæri eða tæki, hönnuð með rétthenta í huga. Einnig eru hljóðfæri, reglur, s.s. umferðarreglur og innréttingar í bílum og öðrum faratækjum hannaðar fyrir þá sem nota hægri höndina meira en þá vinstri. Þetta er meðal þess sem veldur örvhentum vandræðum.
Coren og Halpern (1991) skoðuðu tíðni örvhentra í þýði og komust að því örvhentir eru hlutfallslega færri í eldri aldurshópum en þeim yngri. Þessi niðurstaða fékkst líka þegar þeir voru taldir með sem höfðu ,,leiðrétt örvhendu sína. Fundist hefur aukin tíðni íþróttameiðsla meðal örvhentra unglinga (Graham og Cleveland, 1995) og að örvhentir deyi að jafnaði yngri en rétthentir hefur verið staðfest af fleirum (Hugdahl o.fl., 1992).
Það hefur þekkst víða að fólki hefur verið kennt að nota hægri höndina frekar en þá vinstri, einkum til skriftar. Searleman og Porac (2003) skoðuðu árangur af tilraunum til ,,leiðréttingar örvhendu á kanadískum háskólanemum. Niðurstaða þeirra var að mjög erfitt var að breyta þeim sem mældust stöðugir í örvhendu sinni en meirihluti þeirri sem mældist óstöðugur og gert tilraun til leiðréttingar hafði tekist það. Þessar upplýsingar eru nytsamlegar þegar gera þarf upp við sig hvort þjálfa eigi börn í að nota hægri höndina frekar en þá vinstri. Miðað við tölurnar frá Zverev (í prentun) þar sem sagt er frá mjög lágum hlutföllum örvhentra í ýmsum samfélögum (0.6-2,8% í Kongó, Hong Kong og á Salómonseyjum) má geta sér til um að þrýstingur samfélagsins geri það að verkum að jafnvel stöðugri örvhendu megi breyta með þjálfun. Stöðugleiki rétthendu/örvhendu hefur mælst minni meðal barna á leikskólaaldri (3,0-5,11 ára) en barna á aldrinum 6,0-9,11 ára (Einar Guðmundsson, 1993). Slíkan mun þarf að skoða nánar og ef rannsaka á t.d. á hvaða tímabili, ef einhverju, er hægt að venja börn af örvhendu með góðu móti? Mikilvægt getur verið að greina viðkvæm tímabil (sensitive periods) í þróun örvhendu (Halfon o.fl., 2001).
Að skoða grundvöllinn fyrir breytingum á örvhendu er mikilvægt, sérstaklega svo að við vitum hverjir geta tamið sér rétthendu án mikilla átaka. Porac og Searleman (2002) komust að því að andleg og líkamleg líðan var ekki mismunandi milli rétthentra og örvhentra. Það kom þó í ljós að eini hópurinn sem hafði það marktækt verra, bæði andlega og líkamlega, var hópur örvhentra sem reynt hafði verið að breyta í rétthenta en mistekist.
Niðurlag: Þarfnast örvhentir hjálpar?
Örvhenda er ekki einfalt fyrirbæri. Það er jafnvel ekki ljóst hvort örvhenda sé eitt eða fleiri fyrirbæri (erfðafræði vs. hormónaumhverfi). Hún hefur verið tengd við sjúkdóma, námsörðugleika (Geschwin og Behan, 1984) og slys (Graham og Cleveland, 2003) og verið fordæmd í vissum samfélögum (Zverev, í prentun).
Á vesturlöndum hefur afstaða til örvhentra breyst til hins betra. Samfélagið hefur þó verið sniðið að rétthentu fólki og þó svo að til séu skæri, stílabækur og hljóðfæri fyrir örvhenta getur þessi hönnun samfélagsins hugsanlega útskýrt fleiri slys meðal örvhentra og ýmis óþægindi sem örvhentir verða fyrir.
Ef við tökum módeli Annett (2003) sem gildu göngum við út frá því að engin arfgerð leiði nauðsynlega af sér örvhendu. Því væri verðugt verkefni fyrir tauga- og þroskasálfræðinga að taka saman rannsóknir á örvhendu í þeirri von um að geta greint t.d. aldursbil sem auðvelt er að ,,leiðrétta örvhendu á og hvaða eiginleikar það eru sem gera börn líklegri til að þola slíkar leiðréttingar. Ef nægjanleg gögn væru fyrir hendi mætti búa til mælitæki sem hægt væri að nota til að skera úr með nokkurri vissu hvort tiltekið barn nyti góðs af ,,leiðréttingu.
Í þessari umræðu þarf þó að hafa í huga að örvhenda leiðir ekki sjálfkrafa til stórra vandamála. Það er ekki víst að hagkvæmt sé, hvort sem er peningalega eða mælt í þægindum og öryggi fyrir barn, að því sé kennt að nota hægri höndina fremur en þá vinstri. Það er mikilvægt að huga að örvhentum, ætlum við ekki að snúa þeim til rétthendu. Einföld atriði eins og að hafa klósettpappír hangandi beggja vegna salernis í leikskólum og yngri bekkjum grunnskóla, þægileg ritföng og aðgangur að sérhönnuðum hljóðfærum fyrir örvhent börn geta hjálpað þeim að njóta reynslu sambærilegri við önnur börn.
Að lokum ber að hafa í huga að alltaf eru einhverjir sem missa handlegg og geta þurft að færa öll sín verkefni yfir á illa þjálfaða hendi. Ef í ljós kemur að rannsóknir geta ekki hjálpað örvhentum börnum með hagkvæmum hætti, vitum við a.m.k. að þessir einhentu einstaklingar geta notið rannsókna á handanotkun.
Heimildir
Annett, M. (2003). Cerebral asymmetry in twins: predictions of the right shift theory. Neuropsychologia 41, 469479.
Carlson, N.R. (2004). Physiology of behavior (8. útgáfa). Boston: Pearson Education.
M. Beth Casey and Ronald L. Nuttall. (1990). Differences in feminine and masculine characteristics in women as a function of handedness: Support for the Geschwind/Galaburda theory of brain organization. Neuropsychologia, 28( 7), 749-754.
Coren, S. og Halpern, D.F. (1991). Left-Handedness: A Marker for Decreased Survival Fitness. Psychological Bulletin. 109(1), 90-106.
Geschwind, D.H., Miller, B.L., DeCarli, C. og Carmelli, D. (2002). Heritability of lobar brain volumes in twins supports genetic models of cerebral laterality and handedness. Proceedings of the National Academy of Sciences 99, 317681.
Gleitman, H., Fridlund, A. J., og Reisberg, D. (2004). Psychology (6. útgáfa). London: Norton.
Grafton, S., Hari, R. og Salenius, S. (2000). The human motor system. Í Toga, A.W. og Mazziotta, J.C. (Ritstj.), Brain mapping: the systems (bls. 331-363). San Diego: Academic Press.
Graham, C.J. og Cleveland, E. (1995) Left-Handedness as an Injury Risk Factor in Adolescents. Journal of adolescent health 16, 50-52.
Gudmundsson, E. (1993) Lateral preference of preschool and primary school children. Perceptual and Motor Skills 77, 819-828.
Halfon, N., Shulman, E. og Hochstein, M. (2001). Brain development in early childhood. Í Gauvin, M. og Cole, M. Readings og the development of children (4. útgáfa). (bls 46-49).
Hugdahl, K., Ellertsen, B., Waaler, P.E. og Kløve, H. (1989). Left and right-handed dyslexic boys: An empirical test of some assumptions of the Geschwind-Behan hypothesis. Neuropsychologia 27(2), 223-231.
Hugdahl, K., Satz, P., Mitrushina, M. og Miller., E.N. (1993). Left-handedness and old age: Do left-handers die earlier? Neuropsychologia 31(4) ,325-333.
Janßen, J.P. (2000). Foundations of a Functional Theory of Human Handedness. Theory & Psychology 10(3), 375-398.
Porac, C. og Searleman, A. (2002). The effects of hand preference side and hand preference switch history on measures of psychological and physical well-being and cognitive performance in a sample of older adult right-and left-handers
Neuropsychologia, Volume 40, (12), 2074-2083 .
Searleman, A. og Porac, C. (2003). Lateral preference profiles and right shift attempt histories of consistent and inconsistent left-handers. Brain and Cognition 52, 175-180.
St. Marseille, A. og Braun, C.M.J. (1994). Comments on immune aspects of the Geschwind-Behan-Galaburda Model and of the Article of Byrden, McManus and Bulman-Fleming. Brain and Cognition 26, 281-290.
Zverev, Y.P. (í prentun). Cultural and evironmental pressure against left-hand preference in urban and semi-urban Malawi. Brain and Cognition.
Örvhenta genið fundið? | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
31.7.2007 | 19:52
Háir eru hærri en þeir lægri
Skemmtilegt að þessi fyrirsögn skuli valin. Þetta kemur álíka mikið á óvart og fyrirsögnin mín hér að ofan.
Það er þó áhugavert hversu fáir taka strætó. Kannski breytist það þegar maður getur mætt með Írskt kaffi og lesið Guardian á leiðinni, eins og vonir standa til.
Svona gæti orðið umhorfs í strætisvögnum innan tíðar.
Hafnfirðingar lengur á leiðinni til vinnu en aðrir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
31.7.2007 | 16:53
Myndbirtingar af hinni listrænu og nýkrýndu hóru
Eins og áður hefur komið fram er ég einn helsti aðdáandi hórunnar gullhjörtuðu sem braust inn til hennar hátignar, Margrétar Þórhildar, og tók þar fjölda klámfenginnna sjálfsmynda. Hér er hægt að sjá myndirnar allar, og augljóst að um duglega listakonu er að ræða, sem í senn er djörf og beitt í listsköpun sinni. Þá vekur athygli að hún er sögð 43 ára gömul og virðist bara halda sér ansi vel.
En annan eins bandamann í andkonungsveldisma hef ég ekki hitt áður og býð ég hana velkomna í hópinn.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.7.2007 | 13:58
Hagnýt atferlisgreining
Nú með klassískri skilyrðingu!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.7.2007 | 20:39
Opus Dei í Second life?
Mér þótti þessi frétt á Vísi ansi skemmtileg. Nú er mér sagt (ég hef ekki prófað second life) að í sýndarheiminum séu mörg fyrirtæki búin að opna útibú, og hví skyldi kirkjan ekki reyna að selja sína vöru þar eins og aðrir.
Nú er bara að bíða og sjá hvort heilög stríð verði í sýndarheimum, krossfarir, siðaskipti og annars konar blóðsúthellingar. Svo verður hægt að vera með leyndarmál, yfirhylmingu og spillingu á borð við þá sem við upplifðum í Da Vinci lyklinum. Bara spurning hvenær Opus Dei opnar sína fyrstu skrifstofu.
Fyrir þá sem hafa áhuga á Second life, t.d. tölvunarfræðilegan, félagssálfræðilegan eða hvers konar fræðilega forvitni, vil ég benda á heimsíðu Hannesar Högna Vilhjálmssonar, en hann flutti erindi sem tengist sýndarsamskiptum á fræðakvöldi Res Extensa 5. júlí síðastliðinn.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.7.2007 | 14:52
Sniðugur
Franskur ökuþór vísar íslenskum lögum á bug | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)